Um Grasagarð Reykjavíkur
Grasagarður Reykjavíkur er lifandi safn undir berum himni. Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er rekinn af Reykjavíkurborg. Hann tilheyrir skrifstofu umhverfisgæða sem er hluti af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Umhverfis- og skipulagsráð fer með málefni Grasagarðsins.
Hlutverk Grasagarðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Í garðinum eru varðveittir um 5000 safngripir af um 3000 tegundum. Plöntunum er komið fyrir í 8 safndeildum og gefa hugmynd um fjölbreytni gróðurs í tempraða beltinu nyrðra.