Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni: Fuglaskoðun fyrir krakka
Sunnudagurinn 22. maí er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni og af því tilefni bjóða Grasagarður Reykjavíkur, Reykjavík iðandi af lífi og Fuglavernd upp á fuglaskoðun fyrir krakka í Laugardalnum.
Krakkar eru hvattir til að koma og skoða fuglana í dalnum með okkur og það er velkomið að taka pabba og mömmu, afa og ömmu eða einhverja aðra fullorðna með.
Fuglum er gefið í Grasagarðinum svo þar er hægt að sjá margar fuglategundir, stórar sem smáar. Þetta er einnig afar skemmtilegur tími fyrir fuglaskoðun þar sem Laugardalurinn iðar af lífi og fuglarnir eru í óða önn að koma upp ungum.
Leiðsögumenn í fuglaskoðuninni verða Björk Þorleifsdóttir og Freydís Vigfúsdóttir.
Gott er að taka með sér kíki.
Fuglaskoðunin hefst við aðalinngang Grasagarðsins kl. 10 og er þátttaka ókeypis.
